Olíuverð lækkar ekki á Íslandi

Untitled-1

Erlendu olíufélögin eiga eldsneytisbirgðirnar sem eru hér á Íslandi og íslensku olíufélögin kaupa stærstan hluta af sínu eldsneyti  á gengi hvers dags. Þetta segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda í samtali við Fréttablaðið.

 

Hvers vegna lækkar þá eldsneytisverð á Íslandi ekki í hlutfalli við heimsmarkaðsverð?

Samkvæmt frétt Kjarnans hefur heimsmarkaðsverð á olíu lækkað mikið undanfarna mánuði og í dag er verð á svokölluðu fati komið niður fyrir 50 dali. Lítið virðist þessi verðlækkun á heimsverði hafa áhrif á eldsneytisverð á Íslandi og 57% verðlækkun á heimsmarkaðsverði skilar sér ekki í vasa okkar neytenda heldur rennur til olíufélaganna að mati blaðamanns Kjarnans.

Ef við skoðum myndina hér að neðan má sjá verð á bensíni (rauð lína) og hvernig verðlagið fylgir umreiknuðu heimsmarkaðsverðlagi þar til í maí á þessu ári. Samkvæmt þessari mynd ætti verð á bensíni að hafa lækkað umtalsvert, niður í um það bil 205 krónur.

heimild: http://oil.laxdal.org

Olíufélögin virðast aðeins bjóða eldsneytislyklahöfum 13 til 14 krónu afslátt á föstudögum eða við sérstök tilefni en innheimta fullt verð á öðrum tímum.

Að auki virðist lítil eða engin samkeppni um viðskiptavini í gegnum eldsneytisverð. Í morgun, 4. ágúst, var hæsti og lægsti verðmunur á  95 oktan bensíni aðeins 30 aurar. 

Neytendavakt gagnvart eldsneytisverði er almennt slök á Íslandi og þess vegna er erfitt að hafa áhrif til lækkunar á verði. Ein hugmynd sem heyrst hefur sem aukið gæti áhrif almennings á eldsneytisverð er að allir taki sig saman og versli aðeins við eitt olíufélag og hunsi öll hin. Þetta ætti að vera sársaukalítið fyrir okkur neytendur þar sem engin samkeppni er um viðskiptavini olíufélagana. Ef aðeins eitt olíufélag fær öll viðskipti þá ættu hin félögin lækka verð til að fá viðskiptavini sína til baka.

Það er mikið í húfi fyrir okkur neytendur að lækka eldsneytisverð þar sem við erum mikil bílaþjóð og treystum á einkabílinn sem samgöngutæki.

Hvað finnst þér að eldsneytislítrinn ætti að kosta í dag?

 

panta-bok-fritt1